Sálrænir og líkamlegir

fykgikvillar hjólreiða

og leiðir til bata.

Sálrænir:

"Undir 10 kg. þráhyggja" (Anorexia cyclosis).

Einkenni: Sjúklingurinn verður heltekinn af þeirri hugmynd að hjól séu alls ekki nothæf, ef þau eru yfir 10 kílógrömmum. Hjóleigendur leggja á sig ómælt erfiði og eyða stórfé til þess að létta hjólið um fáein grömm. Menn eru þá jafnvel í beinu símasambandi við Geimferðastofnun Bandaríkjanna þegar uppboð eru haldin á afgangs Titanium skrúfum og fleirum léttmálmum.

Bataleiðir: Slappaðu af og farðu niður í geymslu og grafðu upp gamla DBS 18 kg. 10 gíra pottjárns-hjólið. Þú munt komast í raun um að það er hægt að hjóla á hjóli sem er yfir 10 kg. Ef þú gast það þegar þú varst 10 ára, þá getur þú það svo sannanlega núna.

"Bílfælni (Autofobia nervosa).

Einkenni: Sjúklingurinn sér skítuga og stóra bíla með stingandi augnráð í hverju horni. Hann er jafnvel farinn að halda að samsæri sé í gangi meðal bíla í umhverfi hans, um að gera honum allt til miska. Einhverra hluta vegna er tíðni þessa sjúkdóms há á höfuðborgarsvæðinu.

Bataleiðir: Farðu í tveggj vikna hjólreiðaferð um Melrakkasléttur einsamall. Heimtaðu að borgaryfirvöld geri gangskör í því að leggja hjólreiðastíga víðsvegar um höfuðborgarsvæðið.

Hjólhyggja (Mutatus cyclosis).

Einkenni: Stórvægilegar breytingar á skapgerð og hugsunarhætti í kjölfar þess að sjúklingur fer að stunda hjólreiðar. Hann verður skapbetri, hressari, afslappaðri, jákvæðari, hamingjusamari, hraustari og í betra jafnvægi við umhverfi sitt.

Bataleiðir: Hentu hjólinu og keyptu þér bíl. Það er aftur á móti ávísun á annann og miklu alvarlegri og lífshættulegri sjúkdóm, Bílfíkn.

Líkamlegir:

Langvarandi limlömun (P.P.P(Permanently paralyzed penis syndrome)).

Einkenni: /NB! Sjúkdómurinn getur eðlis síns vegna einungis herjað á karlkyns hjólreiðamenn): Sjúklingurinn missir alla tilfinningu í kynfærum. Dofatilfinning verður alger og fær sjúklingurinn stundum þá ranghugmynd að viðkomandi líkamshlutur hafi dottir af á leiðinni. Þessu fylgir oft tilfinningalegt áfall. Einkenni vara þó sjaldnast lengur en í 8-10 mín. eftir að stigið hefur verið af hjólinu.

Bataleiðir: Byrjaðu á því að stíga af hjólinu, hoppaðu í kringum það í nokkrar mínútur. Þegar því er lokið þá skaltu taka þér sexkant í hönd og stilla hnakkinn þannig að hann halli meira fram.

Aukin svitaframleiðsla (Svetus vulgaris).

Einkenni: Sjúklingurinn verður var við það að hann blotnar við hjólreiðar, þó engin sé rigningin. Hann fer að finna af sér einkennilega lykt. Fatnaður verður rakur og þarfnast tíðari þvotta, einning sjúklingurinn. Í sumum tilfellum fær sjúklingurinn þá ranghugmynd að samborgurum hans finnist þessi lykt vera yfirþyrmandi og ógeðfelld.

Bataleiðir: Ekki örvænta, því það er fullkomlega eðlileg hegðun líkamans, að kæla sig niður við áreynslu með því að auka svitaframleiðslu. Farðu oftar í sturtu, settu oftar í þvottavélina og njóttu þess að svitna.

Vaxtarlagsbreytingar (Bergson - syndrome).

Einkenni: Eftir mjög langvarandi hjólreiða ástundun, verður sjúklingurinn var við stórfellda þrútnun á neðri hluta líkamans. Kryppa kemur á bak hans og hlutföll líkamans breytast stórlega. Á háu stigi sjúkdómsins líkist sjúklingurinn helst Hjalta Úrsursi Árnasyni frá mitti og niður, en efri hluti líkamans minnir á vaxtarlag Óla Priks.

Bataleiðir: Taktu til við að æfa olympískar lyftingar með efri hluta líkamans. Umfram allt skildu hjólið eftir heima og ferðastu um allt á bíl. Þessar aðgerðir geta þó haft í för með sér stórhættulegar aukaverkanir, (sjá Hjólhyggja (Mutatus cyclosis), Bataleiðir). Annað og betra ráð er þó til. Njóttu þess að hafa þennan "sjúkdóm". Líkami þinn er orðinn klæðskerasniðinn fyrir hjólið þitt. Er það ekki hið besta mál ?!

Dr. P.Magnússon phil.,cand.mag. cyclomed. Phd.
Dr.Þ.H.Gröndal phil.,cand.mag. cyclopshycolog.Phd.

Unnið í "Den Svenska Cyclingshögskolaní Örnsköldsvig."
Feb. 1995

Stolið óbreyttu úr "Hjólhesturinn" 1tbl. 4.árg. mars 1995