Hjólreiðar

eru mér hjartans mál !

Upprunalega átti þessi síða að verða mikil lesning um gildi hjólreiða, ekki síst vegna hreyfingarinnar svo og minni mengunar, en með tilkomu heimasíðu fjallahjólaklúbbsins sem er með slóðina http://www.mmedia.is/ifhk þá sé ég ekki mikla þörf á að vera að setja fram einhverja speki sem aðrir geta gert miklu betur. Þó get ég að sjálfsögðu ekki stillt mig um að nefna nokkur atriði.

Innivinnu og kyrrsetu mönnum veitir ekkert af allri þeirri hreyfingu sem þeim býðst. Og hvað er betra en að fá þessa hreyfingu þegar menn er á leið til og frá vinnu. Það er í það minnsta ekki verra heldur en að aka heim í loftköstum eftir vinnu, ná í æfingarfötin og flýta sér á heilsuræktarstöðina til þess að fá smá hreyfingu t.d. á þrekhjólinu.

Mér finnst vanta mikið uppá , að hjólreiðafólk fari eftir umferðarreglum. Fólk ganar yfir mót rauðu ljósi t.d. stofnandi sjálfum sér og öðrum í stór hættu. Bílstjórar sem sjá þetta verða pirraðir út í hjólreiðafólk og nógir eru fordómarnir gagnvart okkur þótt ekki sé verið að auka þá að óþörfu. Þetta eru ekki neinir unglingar sem eru svona litblindir, nei þetta er fólk á besta aldri sem lætur svona.

Ég hef mætt helstu hjólaforkólfum þessa lands, bæði í umferðinni og eins út í guðs grænni náttúrunni, þeir hafa verið með þessar líka rosalegu eyrnafyllingar beintengdar við einhverja síbyljuna. Hver er tilgangurinn ? Í umferðinni höfum við fulla þörf fyrir öll skilningarvitin ekki síst heyrnina. Það er hægt að fylgjast með umferð í bak og bílstjórar geta notað bíflautuna til að koma boðum til okkar. Það er hreinlega stórhættulegt að vera með eyrun full af óþarfa hávaða, hávaða sem dregur úr einbeitni og athygli. Í náttúrunni er ógrynni af hljóðum sem hægt er að njóta þegar maður er hjólandi. Hljóð sem maður heyrir ekki þegar maður ekur um í bíl. Hljóð sem engin síbylja kemst í hálfkvist við.

Um öryggis búnað eins og ljós og endurskinsmerki er alltaf fjallað í dagblöðunum á hverju haust enda ekki vanþörf á. Ég get aldrei skilið hvernig menn sem kaupa 100 til 200 þúsund króna hjól hafa ekki efni á að kaupa ljós fyrir svo sem 2000 krónur. En það er svo sem margt sem ég á erfitt með að skilja í sambandi við hjólreiðafólk og umferð. Ég skil til dæmis ekki hvernig ein fullorðin kona sem ég sé oft á hjóli í austurbænum virðist slompast í gegnum umferðina án áfalla til þessa. Hún er ein af þessum sem fer yfir á rauðu á Miklubrautinni. Hún er oftast hjálmlaus og yfirleitt ljóslaus. Hún hjólar á vinstri akrein niður Suðurlandsbrautina jafnvel þótt þar sé stutt í einn besta hjólastíg borgarinnar, einn af fáum sem virðist eiga samleið með þeim sem nota hjólreiðar sem samgöngumáta. Hún hjólar á móti umferðinni þar sem henni sýnist. Þessi kona hjólar svo til allan ársins hring en einhvern vegin get ég ekki dáðst að henni fyrir það. Hún er einfaldlega of hættuleg sér og öðrum. Hún kemur óorði á okkur og verður til þess að margir bílstjórar sýna okkur minni tillitssemi en þeir ættu að gera.

Að lokum, nú er sjónvarp allra landsmanna er farið að sýna okkur Formúlu 1 kappaksturinn, að þeirra eigin sögn vegna þess að þetta er vinsælasta sjónvarpssport heims , en að sögn allra annarra vegna þess að Stöð 2 er búin að ná af þeim öllum bolta íþróttunum, þá finnst mér vera kominn tími til þess að þeir sýni okkur þriðja vinsælasta sjónvarpssport heims.( Heimsmeistara keppnin í fótbolta er í öðru sæti.) Þetta sport sem dró 400.000 Lúxemborgara út á göturnar 1995 þegar keppnin átti leið þar um. Þetta er að sjálfsögðu Tour de France keppnin. Þessi keppni er af flestum talin ein sú erfiðasta í heimi, þeir sem taka þátt í henni brenna t.d. um 10-12.000 kaloríum á dag. Þessi keppni hentar vel til beinna útsendinga, hún er á þeim tíma dagsins þegar ekkert sjónvarp er allra jafna og tilkostnaðurinn þarf ekki að vera mikill. Einn þulur, sem kemur með gáfulegar athugasemdir öðru hvoru, útskýrir t.d. hvers vegna menn 'drafta' (þýðing óskast) , af hverju sumir stinga stundum hópinn af, af hverju gott er að vera lítill í fjöllunum en stór á sléttunum, dugar alveg og síðan má láta t.d. enskan þul vaða elgin á milli.

Það hefur sýnt sig að með sjónvarpi er hægt að gera svo til hvaða íþrótt sem er vinsæla. Tökum sem dæmi ameríska körfuboltan og allan hamaganginn sem varð í kringum hann. Það væri ólíkt gáfulegra að byggja upp áhuga á íþrótt sem nýttist landsmönnum betur, ég get séð fyrir mér hjóla sportidjóta fara hjólandi til vinnu en ég get ekki séð fyrir mér körfubolta áhugamenn rekja boltann til vinnu. Ég er nú þegar búinn að vekja eftirtekt íþróttadeildar RUV á þessu þjóðþrifa máli en þeir eru með póstfangið tvsport@ruv.is , hef reyndar ekki fengið nein viðbrögð enn sem komið er, en með batnandi fólki er best að lifa og enn er von, keppnin hefst ekki fyrr en í júní.

Þekktir hjólreiða sjúkdómar