Messerschmitt kabinenroller 175 kom fyrst fram á bílasýningunni í Genova 1954, og vakti straks almenna hrifningu. Ekkert þessu líkt hafði komið fram á sjónarsviðið áður og áhrif frá hönnun flugvéla leyndu sér ekki, enda ekki furða þar sem hönnuðurinn hin 56 ára gamli verkfræðingur Willi Messerschmitt var þekktastur fyrir smíði sína á herflugvélum Þjóðverja í seinni heimstyrjöldinni. Þeirra á meðal voru Messerschmitt Bf 109, smíðuð í yfir 45.000 eintökum, aðal orrustuvél þjóðverja í stríðinu, Messerschmitt 262 fyrsta fjölda framleidda þotan og Messerschmitt 163 Comet, eina flugvélin knúin eldflaugarhreyfli sem notuð hefur verið í hernaði.
Kabinenroller var knúinn lofkældum 174cc eins strokk, tvígengis mótor frá Fichtel og Sachs. Mótornum var komið fyrir að aftan og knúði afturhjólið með keðju. Gírkassinn, sambyggður vélinni, var 4 gíra. Kúplingin var þriggja platna og tengdist og aftengdist sjálfvirkt með miðflótta afli. Enginn sérstakur bakkgír var á gripnum en það kom ekki að sök því hægt var að starta vélinni bæði áfram og aftur á bak. Það stjórnaðist af hversu djúpt lyklinum var stungið í svissinn. Fyrstu bílarnir voru með fótstartara en svo var settur í þá rafmagns startari. Mótorinn var snöggur í gang, hvort sem er kaldur eða heitur, og í hægagangi snérist hann ótrúlega hægt. Hestöflin 9 og dugðu til að koma þessum 175 kílógramma þunga farkosti áfram á um 80 kílómetra hraða. Bensíntankurinn tók 11 lítra og eyðslan var um 2,3 lítrar á hundraðið.
Seinna kom svo KR 200 og KR 201 gerðirnar á markaðinn. Þær voru með 191cc mótor 10 hestafla. KR 201 var opin sport útgáfa. Messerschmitt Tiger 500 kom seinast á markaðinn en sá bíll var fjögurra hjóla all nokkuð þyngri eða 300 kíló með 19,5 eða 24,5 hestafla 500cc mótor og hámarkshraða um 140 kílómetrar á klukkustund.
Nú myndu sumir halda að þriggja hjóla bílar væru óstöðugir í akstri en svo er ekki, flestir ef ekki allir bílar eru með minna bil á milli afturhjóla heldur en milli framhjóla og á sumum til dæmis Citroen DS20 þá er það mjög áberandi. Þetta gefur aukinn stöðugleika.
En hvernig er svo að aka svona grip. Þar sem ég hef ekki verið svo lánsamur að prófa það verð ég að vitna í nýlegt breskt bílablað. Blaðamanninnum segist svo frá. "Það er nóg að sjá Messerschmittinn til að átta sig á að það er ekki líkt því að aka venjulegum bíl. Fyrst þarf að átta sig á því hvernig maður á að komast inn í hann. Snúa handfanginu á vinstri hliðinni og lyfta allri þekjunni. Ef það er rigning þá blotna sætin. Smeygja sér undir stýrið sem er eins og reiðhjólastýri, því það er ekki pláss fyrir venjulegt stýri. Farþeginn kemur sér fyrir, fyrir aftan og fætur hans nema við olnboga þína. Þegar maður stingur lyklinum í svissinn verður maður að passa að stinga honum ekki of langt því þá startar vélin aftur á bak og maður hefur 4 bakkgíra. Togað í innsogið og gefið smá bensín og vélin ríkur í gang. Handbremsan bogin stöng með hnúð á endanum læsir einfaldlega fótbremsunni. Gírskiftingarnar eru mjög einfaldar, þú kúplar og ýtir gírstönginn beint fram og leyfir henni svo að koma til baka. Þetta er endurtekið fyrir hverja skiptingu upp. Til að skifta niður er gert hið gagnstæða. Þú togar í aukastöng sem er á gírstönginni til að setja í hlutlausann en ef þú gerir það í fjórða gír og stoppar verður þú að toga þrisvar í stöngina, til að setja í fyrsta gír, áður en tekið er af stað. Hvað annað er frábrugðið. Efst á listanum er stýrið, það er mjög næmt og maður þarf að hugsa sér reiðhjól til að finna út hvernig maður á að bera sig að. Á þröngum og bugðóttum vegum nýtur Messerschmittinn sín mjög vel. Léttur, þyngdarpunkturinn mjög lágt og með hjól á hverju horni gefur hann öðrum bílum ekkert eftir. Bremsurnar, með vírum ekki vökva, bremsa jafnt, hjólbörudekkin og lágmarks gúmmí og loft fjöðrunin gera sitt besta til að gleypa minni ójöfnur á götunum. Fjórði gírinn er hátt gíraður og það gerir bílnum kleift að ná 80-90 kílómetra hraða en brekkur eru fljótar að hægja á honum." Svo mörg voru hans orð. Annar blaðamaður sagði í grein sem skrifuð var í kringum 1956 að þótt bíllinn hefði staðið lengi þá næði startarinn sjaldnast að snúa mótornum heilann hring áður enn hann tæki við sér, og vélarhljóðið í þröngu farþegarýminu hitaði jafnvel Ferrari aðdáendum um hjartarætur. Sá var ekki hrifinn af stýrinu, fannst það of kvikt en sagði að með smá æfingu væri bíllinn þokkalega rásfastur.
Samkvæmt heimildum voru smíðaðir um 40.000 Kr200 á árunum 1954 til 1962. Þeir fóru víða, það eru eigendaklúbbar í mörgum löndum, t.d. Bretlandi, Bandaríkjunum og jafnvel í Ástralíu þar sem haldið var mót 1996. Þar mættur 40 Messerschmitt til leiks þar af 8 Tiger 500 sem þótti nokkuð sérstakt, því það var ekki mikið framleitt af þeim.
Um sögu Messerschmitt á Íslandi veit ég lítið. Það voru nokkrir fluttir inn handa fötluðum að ég held í kringum 1960.Einn er en á skrá, sá er í þorpi norður í landi, annar kom skoppandi á móti mér á Suðurlandsbrautinni 1970. Sá var það vel farinn að sjá, að ég vona að hann sé ennþá til í geymslu einhversstaðar en sé ekki genginn á vit feðranna. Ég hefði gaman að fá póst frá þeim sem kunna að vita eitthvað meira um sögu þeirra á Íslandi. Og ef einhver veit um Messerschmitt Kabinenroller til sölu, sama í hvaða ásigkomulagi hann er, þá vildi ég gjarnan frétta af því, mig vantar einn.orvarm@simnet.is
Heimildir: