Hér er annarsvegar afraksturinn af þessari söfnunaráráttu og hinsvegar smá útlistun á eðli og möguleikum þessarar söfnunar.
Í þessum hlutföllum eru framleiddar þúsundir ef ekki tugþúsundir tegunda bíla
af hundruðum framleiðenda. Þetta eru allt frá smáframleiðendum sem framleiða 1 til 10 tegundir, upp í
framleiðendur sem dæla út hundruðum tegunda á ári. Margir gera mörg afbrigði af hverjum bíl, t.d. ef um
keppnisbíl er að ræða, þá er endalaust hægt að breyta merkingum, bílarnir eru með mismunandi rásnúmer
í þessari eða hinni keppninni og jafnvel er hægt að fá þá merkta eftir því hvenær í keppninni bíllinn á að vera.
Fyrir eða eftir að skift var um vélarhlíf til dæmis. Bílarnir geta verið lokaðir, opnir, með blæjuna uppi eða niðri
og með harð topp.
Svo ganga mótin af þessum bílum á milli verksmiðja. Solido í dag, getur verið Verem á
morgun. Solido í hitti fyrra getur verið Metosul í dag. Metal 43 getur tekið bíl frá Burago, gert mót af honum
og selt sem sína framleiðslu. Gömul mót frá Dinky's getur dúkkað upp sem Pilen og svo má lengi telja.
Þá er þess að geta að bílarnir geta verið 'code 1',
'code 2' og 'code 3' . Þar sem 'code 1'
eru bílar beint frá framleiðanda. 'Code 2' eru svo bílar sem breytt er í samráði við framleiðanda.
'Code 3' eru bílar sem breytt er án leyfis. Þar getur verið um að ræða stórfellda "framleiðslu"
án leyfis framleiðanda en þannig breyttir bílar eru ekkert of vel séðir. Það þykir aftur á móti ekkert athugavert
þótt menn taki einn og einn bíl og betrumbæti eftir geðþótta, enda eru þeir bílar yfirleitt ekki ætlaðir til sölu.
Bílasöfnurum má skifta í tvo meginn hópa. Annars vegar eru þeir sem safna t.d. Hot wheel's
frá Mattel, Matchbox , Jhonny Lightning eða Racing champion. Þessir bílar eru oft á tíðum frekar ýktir í útliti
og keppikefli safnarans er að ná í allar hugsanlegar útgáfur. Mattel býður til dæmis uppá 'First edition' (FE),
'Limited edition' (LE) og 'Tresure hunt' (TH) að auki eru þeir með ótal mörg litaafbrigði og seríur í gangi,
mismunandi hjól eru á bílunum og fleira sem eykur við tilbrigðin. Keppnin um að ná í t.d. TH er mjög hörð
og liggur stundum við slagsmálum þegar teknar eru upp nýjar sendingar í verslunum. Þessi söfnun er mikið
stunduð í Bandaríkjunum og má oft sjá allsnörp orðaskifti um hana í frétta grúppunni rec.toys.cars
á internetinu.
Hins vegar eru þeir sem safna ákveðnum stærðum og vilja hafa bílana sem líkasta fyrirmyndunum,
þeim nægir oftast að ná í einn bíl af hverri tegund og eru kannski betur að sér um tæknileg atriði og sögu bílanna.
Til boða standa mörg stærðarhlutföll.
Ég hef getað fylgst með nýjungum í gegnum ensk safnarablöð,t.d. Model collector útgefnu
af Link house Magazines LTD Link House, Dingwall Avenue, Croydon CR9 2TA og
Diecast collector útgefnu af Warners Group Publications PLC, The Maltings, West Street, Bourne, Lincolnshire PE10 9PH
, þessi blöð gera mér kleyft að hafa ávallt haft tilbúinn óskalista ef ég veit af einhverjum á ferð erlendis.
Svona hef ég náð í einn af öðrum, með ótrúlegri fylgni og útsjónarsemi sem oft á tíðum hefur
reynt mjög á vini og kunningja. Það sem mér finnst skorta hér á landi er að þessir bílar sjáist t.d. í Kolaportinu
eða í fornmunaverslunum. Þetta er algengt erlendis. Hér má finna einstaka brúður en ekki bíla. Munurinn liggur
líkast til í því, að því betri sem stúlkur eru við dúkkurnar sínar því betur tekst leikurinn hjá þeim.
Strákarnir leggja bílana sína aftur á móti í allar þær svaðilfarir sem þeir geta upphugsað. Þegar dúkkan
verður lúin og þreytt er hún sett uppí hillu eða inní skáp, en bílarnir fá oft t.d. kínverja inn um gluggann, það er
svo gaman að sjá þá springa.
Þó þykist ég vita, að það sé þó nokkuð af gömlum bílum til hérlendis. Ég þekki nokkra
sem hafa náð sér í kannski svona 10-20 bíla ekki til að safna, heldur vegna þess að tilteknir bílar hafa
höfðað til þeirra. Það er loksins búið að stofna Félag smábílasafnara, fundir eru haldnir tvivar í mánuði yfir vetrartímann.
Þeir sem hafa áhuga á að hitta okkur geta sent mér póst á orvarm@simnet.is og
ég mun senda til baka stað og stund þessara funda.
Þeir bílar sem vekja líkast til hvað mesta athygli íslenskra safnara, eru þeir bílar sem á einhvern hátt tengjast Íslandi. Þeir sem ég veit af eru : Ford Taunus 1000 panel van lítinn sendiferðabíll, sem framleiddur var af Tekno í Danmörku fyrir margt löngu. Þessi bíll er Type 1 Ford Taunus framleiddur á árunum 1957-66 hann er 'code 1' , sérmerktur versluninni Roða, eins og sjá má á myndinni hér til vinstri. Þessi bíll hefur örugglega ekki verið framleiddur í stóru upplagi, danskur Tekno sérfræðingur sem ég spurði út í þetta hafði aldrei séð hann eða heyrt af honum. Þessi bíll var á uppboði í Þýskalandi í kringum 1985. Ég las um þetta uppboð í ensku safnarablaði, þaðan er myndin fengin, en þá hafði uppboðið þegar farið fram og því auðnaðist mér ekki að gera tilboð í hann. | |
Þar sem ekki hafa fundist litmyndir á netinu af Tekno Ford 1000 bílnum, þá er ekki vitað sem stendur í hvaða lit sá bíll er. Það er freistandi að ætla að hann hafi verið rauður/gulur eins og Volkswagen "rúgbrauðið" sem Tekno gaf út síðar. Því var bíllinn endurgerður í þeim lit af heimasíðuhöfundi. | |
En það er þó jafnvel líklegra að Tekno hafi notað litasamseningu sem þá þegar var í framleiðslu hjá fyrirtækinu. Helst kemur til álita rauður/hvítur bíll eins og Tekno notaði t.d. fyrir Ota haframjöls auglýsingabílana. Til þess að hafa vaðið fyrir neðan mig þá var Fordinn líka endurgerður rauður/hvítur. | |
Volkswagen Van einnig framleiddur af Tekno. Um þennan bíl eru til meiri upplýsingar. Í bókinni Tekno Samlerkatalog sem gefin er út af Samlerbörsen 1997 segja höfundarnir Hans Hedegard og Dorte Johansen að hann sé númer 543-43 og sé framleiddur einhverntíma á árunum 1959 til 1972. Hann er Type 2 af Volkswagen frá Tekno. Samkvæmt því væri freistandi að áætla að Ford 1000 bíllinn sé númer 546-?? og sé framleiddur á árunum 1957 til 1966. Væntanlega hafa þessir tveir bílar verið framleiddir á svipuðum tíma, þannig að framleiðsluár Volkswagen bílsins þrengjast þá niður í það sama þ.e. 1959 til 1966. Ef einhver veit meira um þessa bíla, þ.e. hvenær þeir voru framleiddir, hversu stórt upplagið var og hversu margir af þeim komu til Íslands, þá væri fróðlegt að fá að heyra af því. Þessi bíll var á uppboði á Ebay í mars 2005, en því miður lánaðist ekki að ná honum til Íslands. Myndin hér til vinstri er úr bókinni Tekno Samlerkatalog. | |
Endurgerður Tekno Volkswagen. Þessi bíll er endurgerður af heimasíðuhöfundi. Bíllinn er fenginn á uppboði á www.qxl.dk, um var að ræða bíl sem hafði fengið yfir sig málningu og því ekki gjaldgengur með þeirri skreytingu sem á honum hafði verið. Það þarf að bora upp hnoð í botni Tekno bílana til að opna þá fyrir sprautun, því er auðvelt að sjá hvort Tekno bílar eru upprunalegir eða endurgerðir. Fyrir þá sem huga að endurgerð t.d. Tekno bíla þá er oft hægt að ná í varahluti í þessi gömlu módel. Ég pantaði Roða þrykkimyndirnar á heimasíðunni www.teknobil.dk þar er hægt að fá fjölda þrykkimynda á hina ýmsu Tekno bíla, ásamt fjölda varahluta, reyndar eru ekki til dekk þar, en dekk undan Corgi, sem hægt er að panta frá Englandi, passa undir marga af eldri Tekno bílunum. Það er gaman að geta þess að sá sem heldur úti þessari Tekno síðu hefur ekki séð Roða bílana og þekkir enga sem hafa barið þá augum. Hann segist vita af nokkrum endurgerðum bílum, en jafnvel þeir séu sjaldséðir. Þetta segir nokkuð um hversu fágætir þessir bílar eru. | |
Volkswagen Van framleiddur af Hongwell, sprautaður í sömu litum og með samskonar þrykkimyndir og Tekno bíllinn. Þetta er dæmi um 'code 3' bíl, þ.e. bíl breytt án leyfis. Ekki er um eiginlega fölsun að ræða þar sem Hongwell líkanið er frábrugðið Tekno að mörgu leyti, svo sem krómfelgur, krómaðar ljósaumgjarðir, svo og speglar og loftnet sem ekki eru á Tekno bílnum. Þessi bíll er búinn til af heimasíðuhöfundi. | |
Dodge vörubíll framleiddur með leyfi Lego hjá Reykjalundi í kringum 1960 ? Ekki nákvæmasta líkan sem um getur en nokkuð skemmtilegur samt. Vörubílarnir voru framleiddir í tveimur lita samsettningum, rauðir og hvítir merktir Esso og rauðir og gulir merktir Shell. Olíutankurinn er festur á grindina með smellu og því auðvelt að skipta og setja í staðinn ýmiskonar útbúnað. Vörupall með lágum borðum, fjórhjóla aftanívagn með háum borðum, langan vöruvagn með hásingu og langan olíutank með hásingu. | |
Eftir nokkur póstsamskipti við amerískan Lego safnara Clarke Bakker varð ég margs vísari um Dogde vörubílana og fann nokkrar myndir á netinu af þeim. Hér eru tveir "flatbed" bílar frá Shell og Hinu Íslenska steinolíufélagi. Clarke sendi slóðina á þessar myndir, en myndirnar er að finna á miniland.nl, merkilegt nokk voru þessir bílar merktir Finnlandi. Frá Reykjalundi komu líka Volkswagen bjöllur í 1/38, en því miður hef ég ekki náð í þokkalega mynd af þeim. | |
Reykjalundur hefur verið nokkuð sterkur á íslenskum leikfangamarkaði upp úr 1950. Flestir leikfangakassar hafa líkast til innihaldið nokkra bíla, báta, dúkkur eða kubba frá þeim ágæta framleiðanda. Hér er mynd af Ferguson TE20 frá Reykjalundi. Þetta er í mínum augum "traktorinn", bæði er þetta fyrsti traktorinn sem ég man eftir á Siglufirði og eins átti ég svona leikfang með tilheyrandi plóg og herfi. Ef smellt er á Ferguson TE20 ásamt fylgihlutum, þá kemur stærri mynd, hvar traktorinn sést ásamt fylgihlutum og umbúðum. Reyndar var herfið sem ég átti grátt en ekki rautt eins og á myndinni. Þessar myndir eru af síðunni Lauritz.com sem er uppboðsfyrirtæki. Þar var þessi gripur boðinn upp í apríl 2014, áætlað virði var 800 sek en gripurinn var sleginn á 12,500 sek eftir mikla baráttu tveggja safnara. | |
Renault L4 framleiddur af Vitesse hann er númer L141. Þessi bíll tók þátt í leiðangri rúmlega 20 slíkra bíla til Íslands í kringum 1985. Þeir óku þvers og kruss um landið meðal annars yfir hálendið. Ég náði í þennann bíl 1998 , þá eins eða tveggja ára gamlann. Þessi bíll hefur sjálfsagt ekki verið framleiddur nema í eitt ár. Hann virtist ekki seljast vel , enda ekki höfðað sterkt til margra. Hann var lengi fáanlegur á safnaramörkuðum, en er væntanlega uppseldur núna.Bíllinn er code 1. | |
Eðal ehf. - Katla, sem sérhæft sig í framleiðslu og innflutningi á vörum fyrir matvælaiðnað, ásamt framleiðslu og þróun lausna fyrir bakara-, kjöt- og fiskiðnað, svo vitnað sé í heimasíðu fyrirtækisins, hélt upp á fertugs afmælið sitt 1994 með því að láta framleiða fyrir sig bíl til gjafa, handa viðskiptavinum sínum. Þetta var Cadillac 452 Van, framleiddur af Solido. Bíllin er code 2, þ.e. Katla lét fyrirtæki sem sérhæfir sig í kynningarvörum fyrir fyrirtæki, merkja bílinn fyrir sig. Bíllinn er með "Tampo" merkingum, þ.e. ekki með þrykkimyndum heldur eru merkingarnar prentaðar beint á bílinn. Upplagið var á bilinu 500-1000 stykki. | |
Því miður á ég ekki eintak af bílnum sem var framleiddur fyrir Kötlu, en ég fékk gefins sýnishorn af bíl sem ekki fór í framleiðslu. Hinn finnst vonandi seinna. | |
Frimerkjasalan Frímerkjasalan gaf út sinn fyrsta bíl 22/05 2003. Þetta er módel af Ford AA póstbílnum sem núna er á Samgöngusafninu á Skógum . Bíllinn er frá Lledo í 1/64 ekki sá nákvæmasti sem sést hefur en eigi að síður góð byrjun hjá Frímerkjasölunni, númer hans er B101, upplagið er 2000 stykki. Með bílnum fylgir frímerki með mynd af bílnum ásamt póstkortum, þannig að allur er pakkinn hinn glæsilegasti. Eini gallinn er kannski að fyrir einhver mistök í verksmiðjunni þá var bíllinn framleiddur með stýrið hægra megin, þrátt fyrir að sýnishornið sem Frímerkjasalan fékk í hendurnar hafi verið með það vinstra megin. Myndin hér til vinstri er að bílnum með stýrið hægra megin. | |
Myndin hér til vinstri er af sýnishorninu, fyrir utan að vera með stýrið vinstra megin þá eru gluggarnir hálfskyggðir. | |
Frímerkjasalan gaf út sinn annan bíl 2004. Þetta er módel af Renault Master póstbíl samskonar og Pósturinn er með í notkun núna, númerið er B102, upplag 1000 stykki. Þessi bíll er eins og sá fyrri frá Lledo og er í 1/64. Merkingar eru snyrtilega "Tampo" prentaðar. Ljós eru samlit, það hefði vissulega lyft bílnum aðeins að vera með þau máluð í silfri og appelsínugulu. Með bílnum fylgir póstkort með mynd að bílnum í 1/1. Vonandi getum við búist við einum bíl á ári frá Frímerkjasölunni. | |
Myndin hér til vinstri er af sýnishorninu sem Frímerkjasalan fékk. Það var Ford Transit sem hafði ekki verið í notkun hjá póstinum og því var Renault Eurovan valinn frekar. | |
Afbrigði við þennan bíl var gefið út seinni part árs 2004, það er um sama bílinn að ræða, nema hvað hann er ekki merktur á afturhurð með "Nr 2" og honum fylgir ekki upprunavottorð. Hann er númer B102c. Upplagið var 1500 bílar, 1100 var dreift til fyrirtækja en 400 voru settir í sölu til safnara. Mynd af afturhurðum þessara tveggja bila er hér til vinstri. | |
Þriðji bíllinn frá frímerkjasölunni B103 var gefinn út 26/05 2005. Hann er af tegundinni Bedford 30 CWT Box van árgerð 1950, stærðin er eins og á fyrri bílum um 1/64 þótt að á heimasíðu frímerkjasölunnar komi fram að hann sé 1/43. Upplagið er 1500stykki. Bíllinn er sagður samnefnari stærri flutningabifreiða sem Pósturinn, þá Póstur og sími notaði í rekstri sínum milli 1950 og 1960. Það hefði vissulega verið skemmtilegra ef það hefði fylgt með mynd af fyrirmyndinni, en útgáfa Frímerkjasölunnar ræðst nokkuð af því hvaða bíla hún getur látið framleiða fyrir sig á fyrir skikkanlegt verð. | |
Myndin hér til vinstri er af sýnishorninu sem Frímerkjasalan fékk. Eini munurinn á sýnishorninu og bílnum sem fór í framleiðslu eru felgurnar, hvítar á sýnishorninu en svartar á þeim sem framleiddur var. | |
Fjórði bíllinn frá frímerkjasölunni B104 var gefinn út 15/07 2006. Þetta módel af Mack Sac vörubíl er samnefnari fyrir flutningabifreiðar sem fluttu póst á fyrstu árum bílaaldar í Reykjavík. Þ.e. á bilinu 1920 til 1930. Upplagið er 1224 stykki. Með bílnum fylgir póstkort með mynd af vörubíl, Chevrolet 1928 árgerð sem fljótt á litið er ekki óáþekkur Mack bílnum. | |
Myndin hér til vinstri er af sýnishorninu sem Frímerkjasalan fékk. Það er ekkert frábrugðið þeim bíl sem framleiddur var, fyrir utan að vera með hlass af pokum á pallinum. | |
Fimmti bíllinn frá frímerkjasölunni B105 var gefinn út í maí 2007. Þetta módel af Landrover jeppa er samnefnari fyrir farartæki sem landpóstar hafa áratugum saman notað í dreifbýli á Íslandi. Upplagið er 1296 stykki. Með bílnum fylgir póstkort með mynd af Landrover jeppa sem reyndar er ekki af sömu árgerð. Þetta er fyrsti bílinn frá Frímerkjasölunni sem er í staðlaðri stærð þ.e. 1/43. Vonandi verður þar framhald á. Af nógu er að taka, Lledo framleiðir fleiri bíla í 1/43 og eins væri hægt að hugsa sér bíla frá Oxford diecast. Það væri ekki amalegt að næsti bíll væri Volkswagen rúgbrauð, Ford Anglia sendiferðabíll eða Austin mini sendiferðabíll, í gráum lit og með bláa sporöskjulagaða Póst og símamerkið á hurðunum. | |
Sjötti bílinn frá frímerkjasölunni B106 var gefinn út í mars 2008. Um er að ræða bráðhuggulega rútu sem, svo vitnað sé í heimasíðu frímerkjasölunnar, " er módel af Bedford OB 1950 áætlunarbíl samnefnara bíla sem önnuðust farþega- og póstflutninga milli Akraness og Akureyrar. Módelið er eitt af 2000 tölusettum eintökum sem Íslandspóstur gefur út. Upprunavottorð og sérhannað póstkort án frímerkis fylgir bílnum." Módelið er í 1/76 sem er algeng safnarastærð fyrir rútur og stærri bíla. | |
Sjöundi bílinn frá frímerkjasölunni er Volkswagen Van DG73 (DG=Days gone) gefinn út 4 nóvember 2010. Upplagið er 1500 tölusett eintök, með fylgir upprunavottorð. Stærðin er 1/64 sem er nokkuð algeng söfnunarstærð. Þetta er fyrsti bíllinn í röð þemabíla, fyrsta þemað er eldgos. Bíllinn er skreyttur 6 eldgosafrímerkjum og er bráðhuggulegur. Líkast til sá fallegasti sem hefur komið frá frímerkjasölunni. Það má kannski deila um skreytinguna , en þetta er t.d. sú leið sem Álandseyjapósturinn hefur farið og bílar þaðan seljast yfirleitt fljótlega upp.Það er óskandi að næstu þemabílar verði líka 1/64. | |
Áttundi bílinn frá frímerkjasölunni er DAF LF gefinn út maí/júní 2013. Upplagið er 1200 tölusett eintök, með fylgir upprunavottorð og póstkort. Stærðin er 1/87 sem er algeng söfnunarstærð. Á heimasíðu Frímerkjasölunnar stendur "Bíllinn er samnefnari fyrir flutningabíla sem Pósturinn notar í rekstri sínum. Bílarnir annast póstflutninga á höfuðborgarsvæðinu, til Suðurnesja og Selfoss." Póstkortið gefur til kynna að um sé að ræða Renault bifreið, en það breytir svo sem engu. Bíllinn er Tampo prentaður, gullfallegur, þeir fara bara batnandi bílarnir frá frímerkjasölunni. |
Nokkur Íslensk fyrirtæki hafa á seinni árum látið framleiða fyrir sig bíla, til auglýsinga og gjafa, ég veit af þremur flutningafyrirtækjum sem það hafa gert, vafalaust hafa fleiri fyrirtæki gert þetta , það væri gaman að fá fréttir af því og ekki væri verra ef hægt væri að nálgast þannig bíla.
Flytjandi hefur látið fjöldaframleiða fyrir sig tvo bíla. Volvo með stóran tengivagn, upplag 500 stykki. Þessi bíll er með límmiðum á hliðunum og er í 1/87. Framleiðandi er Adtruck. Heimasíðuslóð Flytjanda er www.flytjandi.is | |
Seinni bíllinn frá Flytjanda, upplag 2000 stykki. Bíllinn er að öllum líkindum DAF. Þessi bíll er 1/87 og er með "Tampo" prentun á hliðunum. Framleiðandi er Adtruck. | |
Hér til vinstri er mynd af sýnishorni sem Flytjandi fékk, þetta er Mercedes benz Actros með tengivagni, þessi bíll fór ekki í framleiðslu. Þessir bíll er með límmiða á hliðunum og eru í 1/87. Framleiðandinn er Adtruck. | |
Landflutningar létu framleiða fyrir sig Scania 113M ásamt tengivagni. Hliðarnar eru "Tampo" prentaðar. Bíllinn er í 1/87, framleiddur af PP models. Um fjölda framleiddra bíla er ekki vitað, en vonandi verður hægt að finna út úr því. Heimasíðuslóð Landflutninga Samskip er www.landflutningar.is | |
Jónar Transport hafa nýverið látið útbúa fyrir sig Mercedes benz Actros ásamt tengivagni. Hliðarnar eru með límmiðum. Bíllinn er í 1/87, framleiddur af Elawo models. Fyrirtækið Wivapromotion B.V. sá um skreytingar á bílnum. Alls voru framleiddir 500 bílar , hvar af 350 fóru í dreifingu hérna heima og 150 erlendis. Heimasíðuslóð Jónar Transport er www.jonar.is | |
Samskip fluttningabíll og gámur í 1/160 alfarið úr plasti. Bíllinn er framleiddur af Herpa | |
Samskip fluttningabíll og gámur í 1/87 alfarið úr plasti. Bíllinn er framleiddur af Herpa | |
Vörubíll lét framleiða fyrir sig 1000 stykki af Mercedes Benz sendibíl. Bíllinn virkar full lítill til að vera í 1/87 en erfitt að segja til um það. Hliðarnar eru "Tampo" prentaðar. Framleiðandinn er merkilegt nokk sá sami og framleiðir fyrir Flytjanda þ.e. Adtruck. | |
Vetnisstrætisvagn sem Strætó bs er búið að vera með í akstri í nokkur ár. Þetta er eini bíllinn úr pappa sem skráður er í safnið, hann er bara "fjarska fallegur" fljótt á litið. Stærðarhlutföll um 1/64. |
Nokkrir bílar tengdir Íslandi hafa verið að stinga upp kollinum á Ebay, þetta eru code 1,
code 2 og code 3 bílar. Mér hefur lánast að ná í nokkra.
International trukkur með tengivagni, frá Winross, merktur Iceland seafood, upplag óþekkt en væntanlega ekki mjög stórt. Þessi bíll er frekar grófur, sama módel er til merkt hinum og þessum fluttningafyrirtækjum í Bandaríkjunum. |
Jaguar XKR sem notaður var í Bond myndinni Die another day sem tekin var hér á landi 2002. Bíllinn er á íslenskum númerum OR 203. Bíllinn er framleiddur af Minichamps. Hann er líka til í 1/18 frá ERTL. |
Íslenska númerið aftan á bílnum. Eins og sést á myndinni þá hefur smáatriði farið framhjá þeim sem útbjuggu bílinn. Bíllinn er 2002 árgerð, því hefði skoðunarmiðinn að sjálfsögðu átt að vera "05" en ekki "02". reyndar hafa borist ábendingar um að þetta sé ekki allskostar rétt. Þar sem bíllinn er fluttur inn á skammtímaleyfi, þá gæti ártalið 2002 verið rétt. |
Ford Transit frá Lledo, merktur Iceland verslunarkeðjunni í Englandi, kannski dulítið langsótt, en þessi keðja er/var jú í eigu okkar íslendinga. |
Síðastur en ekki sístur er Volvo S60 framleiddur af Hongwell, merktur lögreglunni. Þessi bíll er sjálfsagt code 1. Framleiddur af Hongwell fyrir Ítalska útgefandann Fabbri , sem gefur út allskonar safnaraseríur, þar á meðal seríu af lögreglumbílum víðs vegar frá í veröldinni. Bíllinn frá Fabbri kemur ekki í hefðbundnum Hongwell pakkningum heldur er hann límdur á 8 síðna blað sem er í A4. Blaðið og bíllinn er að sögn gefinn út í 700 eintökum. Hann var síðan gefinn líka út í Hongwell pakkingu, upplag óþekkt. Hér að neðan eru myndir af bílnum og blaðinu sem fylgdi honum. Ef smellt er á myndirnar af blaðinu fæst stærri mynd. |
Fyrir lengra komna sem eru orðnir forfallnir safnarar er fátt um fína drætti hérlendis, en erlendis t.d. í Englandi eru haldin mikil safanaramót (swapmeatings), hér slóð sem bendir á þau stærstu http://www.barrypotterfairs.com.