Bílasöfn.

Hér eru talin upp nokkur bílasöfn, þau sem heimasíðu höfundur hefur séð (fremri dálkur gulbrúnn) og þau sem hann á eftir að sjá (fremri dálkur grár). Söfnin eru talin upp eftir löndum.

Birdwood Mill
National Motor
Museum
Birdwood 5234
Ástralíu
Þar sem loftslag er þurrt í Ástralíu og ekki þörf á að salta vegna hálku þá geymast bílar vel þar. Það er ástæðan fyrir því að margir bílar safnsins eru í upprunalegu standi, eftir meira en 70 ár sumir hverjir, fyrir utan ný dekk og kannski nýtt lakk. Markverðir bílar á safninu eru til dæmis 1899 Shearer steam sem er gufuknúinn en hann er elsti gangfæri bíllinn í Ástarlíu. Talbot 25hp 1907 sem var fyrstum bíla ekið frá Adelaide til Darwin 1908. Ferð sem áætlað er að endurtaka 2008. Fyrsti Holden bíllinn er á safninu ásamt bílum númer milljón og tvær milljónir en Holden fyrirtækið var stórt í bifreiðayfirbyggingum þangað til GM eignaðist fyrirtækið og breytti því í bílaverksmiðju. Á safninu eru um 170 bílar og slatti af mótorhjólum.
Safnið er til húsa í gamalli hveitimyllu en hana keypti Jack Kaines stofnandi safnsins í þeim tilgangi að hafa þar mótorhjólasafn sem hann átti. Suður Ástralíu stjórn keypti safnið 1976 til þess að koma í veg fyrir að bílarnir yrðu seldir úr landi. Það er stefna safnsins að fá sem flesta einkasafnara til þess að geyma bíla sín þar.
Gilltraps
Auto museum
Palm Beach
Queensland 4221
Ástralíu
Þetta safn er ættað frá Nýja Sjálandi og var stofnað þar af George Gilltraps 1954. Safnið er ekki stórt um 30 bílar en á móti kemur að þeir eru allir vel uppgerðir og keyrsluhæfir enda eru það fyrirmæli stofnanda safnsins að þeim sé ekið reglulega. Aðein einn bíll, Ford T, er ekki full uppgerður. Aðeins hálfur bíllinn var gerður upp, til að sýna mun á fyrir og eftir. Einn af bílum safnsins sem gaman væri að sjá í akstri er Pritchard gufubíll frá 1979. Nýtískuleg yfirbygging byggð um háþróaðann gufurafal. Nú eða þá Detroit Electric 55 sem smíðaður var 1915 af Anderson Eletric of Detroit en sá bíll var notaður af fyrsta eiganda sínum fram til 1946.
York
Auto museum
Avon Terrace
York
Perth
Ástralíu
Safnið er stofnað af Peter Briggs, það hefur að geyma um 150 bíla og er almennt talið besta sport- og kappaksturbílasafn Ástralíu. Allir bílarnir eru í fullkomnu lagi og keyrsluhæfir og taka margir þeirra árlega þátt í Castrol York Flying Fifty sem er hópakstur fornbíla sem leysist oftar en ekki upp í kappakstur. Þótt safnið sé aðallega með sport- og kappaksturbíla státar það sig þó af bílum eins og 1hp Renault 1899, 1910 8hp Clément tourer og Cadillac double phaeton 1 strokks 1906. 1914 40/50 hp Silver Ghost Rolls-Royce mjög svo upprunalegur er þarna og Isotta-Fraschini straight-eight Tipo 8 1923 sem er með heimsins fyrstu fjöldaframleiddu 8 strokka línu vélina. Bíll með nafninu BRM Formula 1 Project 109 flat-16cyl 3-liters er þarna líka. Að lokum skal nefndur Maybach Special Mk3 racing 1955 sem af strangtrúuðum er talinn einn af bestu sérsmíðuðu bílum sögunnar.
Safnið stendur við aðalgötu borgarinnar. Bílarnir eru í þremur aðal sölum þar sem hver salur er helgaður ákveðnu tímabili í sögu bílsins. Að auki er sýningasvæði utandyra.
Vienna Museum
of industry
and trade
Mariahilfer-strasse 212
Wien
Austurríki

Fremur lítið safn, sem er eitt af elstu tæknisöfnum Evrópu, stofnað 1918. Safnið spannar líkt og önnur tæknisöfn, fleira en bifreiða, en metnaður hefur verið lagður í það að ná saman sem flestum Austurrískum bílum. Þrátt fyrir að safnið hýsi aðeins 48 bíla þá er þar að finna 24 bíla frá Austurríki og fyrir þeirra sakir er safnið talið einkar áhugavert. Þarna er Markus-Wagen, með fjórgengis mótor, mekanískum ventlum og rafmagnskveikju, Austurríkismenn telja hann smíðaðann 1874 og þar með fyrsta nothæfa bílinn. Þarna eru tveir Lohner-Porsche bílar með tvenndar vélum bensín/rafmagn, sú hönnun er sem sagt ekki ný af nálinni. Hans Ledwinka fæddur í þeim hluta Austurríkis sem varð seinna Tékkóslóvakía á þarna Tatra 57 og þarna eru bílar frá Steyr, Graf og Stift
Safnið er í miðri Vínar borg. Strætivagna leið 4 og sporvagnar 52 og 58 sjá um að koma gestum á safnið.

Provincial
Automobile Museum
Keltcherhoef
Houthalen
Belgíu

Upphaf safnsins má rekja til ungs bílasala Ghislain Machy sem samkvæmt bókum, keypti flak af Ford T árið 1944 fyrir 150 Belgíska franka. Hann dundaði sér við að gera gripinn upp og ánægjan sem hann hafði af því varð honum hvatning til að stofna safn, sem nú telur um 850 faratæki og er eitt stærsta bílasafn heims. Meginn þorri farartækjana er geymdur í Sirkusbyggingu í Ghent en 250 bílar eru á safninu í Houthalen, en héraðsstjórn Limburg héraðs lét reisa hús yfir safnið 1970. Reglulega er skipt um sýningargripi, en safnið á gott úrval af bílum eins og Minerva, Panhard, Fn, Delahayes, og De Dion Bouton. Af Ford T eru 10 stykki og aðrir amerískir framleiðendur eiga þarna fulltrúa. Ekki má heldur gleyma að telja með Messerschmitt KR200 kabinroller sem þarna er.
Safnið er úti í sveit, þegar komið er til Houthalen er stefnan tekin til Zwatberg og er safnið við krossgötur um það bil 5 kílómetra frá borginni. Hægt er að taka lest til Ghent og síðan áætlunarleið 31 til að komast á safnið

Egeskov
Veteranmuseum
5772 Kværndrup
Fyn
Danmörku
Safnið var stofnað 1967 og er hugsað sem samgöngusafn. Safnið sjálft á ekki nema um 20% sýningargripanna, hinir eru geymdir á safninu. Safnið gerir samning við eigendur gripanna til 1-10 ára, með þessu leysast geymslu vandræði manna og um leið fá fleiri að njóta bílanna, af þessu leiðir líka að um nokkurn breytileiki er ræða, hvað er að sjá hveju sinni. Það eru svo sem engir mjög merkilegir bílar á safninu, samtíningur sem er þó gaman að sjá ef maður á leið hjá, það eru um 50 mótorhjól og mörg hver sjálfsagt nokkuð merkileg án þess að ég beri skynbragð þar á. Þarna er að finna Supermarine Spitfire IX frá Danska flughernum ásamt nokkrum öðrum flugvélum. Um 25 hestvagnar eru á safninu.
Safnið er til húsa í gamalli höll og skemmum henni tengdri. Hallargarðurinn er opinn gestum og á svæðinu er veitingastaður sem er opinn yfir sumarið.
Vagn's Saab museum
Nordborgvej 56
Svenstrup
6430 Nordborg
Danmörku
Veffang:

Safnið er ekki stórt en hefur að geyma nokkrar Saab bifreiðar frá árunum 1952 til 1968 og er einkasafn Vagns Bruncke sem jafnframt hefur gert upp bílana.

The National
Motor Museum
Beaulieu
Brockenhurst
Hampshire
Englandi

Á safninu, sem skipt er í nokkra sali, eru t.d. heilu verkstæðin, með bílum í viðgerð ásamt varhlutalager og ef maður staldrar við heyrir maður skvaldrið í bifvélavirkjunum og viðskiptavinum þeirra. Þarna er götumynd frá u.þ.b.1930, með verslunum og bílum. Þarna eru nokkur farartæki sem hafa sett hraðamet , þ.e. Sunbeam 1000 hestafla gripur, sem fyrstur náði 200 mílna hraða á klukkustund. Golden Arrow, Blubird 1961 árgerð og Thrust II sem setti hraðamet 1984. Þarna er að finna smábíla eins og Bmw Isetta og enþá smærri Sinclair C5 sem ætti frekar að flokka með mótorhjólunum sem eru þarna í röðum. Á safninu eru líka tryllitæki eins og Auburn 851 speedster 1935, Ford Thunderbird 1956, Aston Martin DB5 1964, Ford GT 40 Mk III coupe 1966 og DeLorean 1982. Þarna er fátt eitt talið til. Það er útskýrt á skemmtilegan hátt hverning t.d. fjöðrun og demparar vinna, virkni sprengihreyfla og fleira. Hægt er að athuga viðbragðflýti gesta og gera ýmsar tilraunir viðvíkjandi bílum. Þetta þykir að sögn eitt best framsetta bílasafn heims, gestir eru leiddir í gegnum þróun bílsins frá 1895 til dagsins í dag á afar skemmtilegann hátt.
Safnið er stofnað 1970 og grunnurinn að því er safn Edwards Montagu, Montagu Motor Museum stofnað 1952 og Motoring library sem stofnað er 1960. Safnið er má segja úti á miðri heiði og er til húsa í sérbyggðum sýngarskála, sem umlukinn er stórum garði. Í nágrenninu er Beaulieu klaustur og höll Montagu ættarinnar er þar rétt hjá, en hún er að hluta opin almenningi. Það er ráðlegt að áætla heilann dag í heimsókn til Beaulieu.

Musée
de l'Automobile
Henri Malartre
Chateau de
Roschetaillée-sur -Saone
Lyon
Frakklandi
Henri Malartre var brotajárns kaupmaður, en sem betur fer smitaðist hann af söfnunar áráttu 19 ára gamall, þegar hann féll fyrir Rochet-Schneider vis-á-vis árgerð 1885 sem átti að fara að rífa. Bifreiðin var gerð upp og hefur tekið þátt í mörgum fornbíla akstrinum síðan og er talin ein af stjörnunum í núverandi safni. Henri hélt til haga mörgum fornbílum sem bárust í hendur hans, þeir voru gerðir upp og urðu hluti af safni hans sem í dag er talið eitt af besta bílasafn Evrópu, hvað varðar val á bílum og endursmíði þeirra. Margir bílanna voru smíðaðir í Lyon og nágrenni og þykir safnið gera frönskum bílaiðnaði í byrjun aldarinnar góð skil. Á safninu eru svo meðal annars frumgerð Citroen braggans og einkabíll Adolfs Hitler Grosser Mercedes 770K sem var með 16mm brynvörn og 52mm þykku skotheldu gleri.
Hluti safnsins er í höllinni en Lyon borg eignaðist höllina og safnið 1972. Í sumum tilfellum þurfti að taka bílana sundur til þess að koma þeim inn í höllina, upp stiga og inní herbergin þar sem þeir standa nú. Höllin ein og sér er þess virði að gera sér ferð til að skoða hana. Stór skemma hýsir hinn hluta þeirra 200 bíla sem eru á safninu.
Musée Nationale
de l'Automobile
192 avenue de Colmar
68100 Mulhoue
Frakklandi
( The Schlumpf
collection)
Bræðurnir Hans og Fritz Schlumpf voru stórir í vefnaðarvörubransanum og á tímabili var Fritz talin sjötti ríkasti maður Frakklands. 1956 fóru þeir að safna bílum og þá aðallega Bugatti.
1963 keyptu þeir það sem eftir var af Bugatti verksmiðjunni, fengu þar Bugatti Royale og marga aðra einstæða bíla ásamt varahlutum.. Ári seinna keyptu þeir John Shakespeare safnið, en í því voru 32 Bugatti og þar á meðal hinn Bugatti Royal bíllinn sem safnið á. 1976 varð kreppa í vefnaðarvöruiðnaðinum , markaðurinn var fullur af ódýrri vefnaðarvöru frá Asíu , peningur bræðrana, þar á meðal lán frá franska ríkinu ætlað til enduruppbyggingar verksmiðjanna, var allur bundinn í safninu. Bræðurnir urðu gjaldþrota og forðuðu sér úr landi og það eina sem þeir höfðu með sér úr safninu voru fílastytturnar tvær sem skreyttu húddin á Bugatti royale bílunum. Fram að þessum tíma höfðu fáir fengið að skoða safnið, helst kóngafólk og nýríkir.
Þegar verkamenn brutust inn í safnið 1977 blasti við þeim einstæð sjón. 427 fornbílar þar af stæðsta Bugatti safn heims 122 bílar. Ekki nóg með það, um 200 bílar voru bakatil og biðu þar viðgerðar, þar af um 35 Bugatti. Aðeins var um evrópska bíla að ræða. Mönnum greinir á um hvort safnið beri vott um vandaðan smekk bræðrana eða hvort græðgi hafi ráðið ferðinni í bílakaupum. En eitt er víst að svona safn hefði líkast til aldrei orðið til án þeirra. Sem dæmi áttu þeir 8 af þeim 28 Bugatti týpu 55 sem vitað er að eru til, en þessir bílar eru næstir í röðinni á eftir Bugatti Royale hvað varðar vinsældir hjá söfnurum, ganga kaupum og sölum á rétt rúmar 1,5 milljónir bandaríkjadala.
Safnið er í stórum sal sem áður hýsti verksmiðju. Loftinu er haldið uppi af 900 útflúruðum ljósastaurum. Við innganginn er heljarmikið vélvætt orgel sem spilar tónlist af tréspjöldum, og hjá því er mynd af móður bræðrana en safnið er tileinkað henni. Svæðinu er skipt með hellulögðum strætum og það er rúmt um bílana, sem standa á búkkum, þannig að hjólin nema við malarundirlag. Merkingar bílanna eru nokkuð góðar. Þarna inni er að finna matsölustað og minjagripaverslun. Aðstaðan öll til fyrirmyndar. Þremur mánuðum eftir að safnið var opnað almenningi átti ég þess kost að skoða safnið. Eftir að hafa lesið bókina The Schlumpf obsession sem gefin var út af Heron house publishing Ltd 1977 var þetta stór stund. Það olli nokkrum vonbrigðum að bannað var að hafa með myndavélar , en nokkrum árum seinna var myndataka leyfð. Það er óhætt að reikna sér heilan dag í heimsókn á safnið og þess vegna tvo.
Búvélasafnið
Hvanneyri
Borgarfirði
Íslandi
Veffang:
Það má kannski deila um það hvort búvélasafn á heima í þessum lista, en þar sem megin uppistaða safnsins eru dráttarvélar þá hlýtur svo að vera. Svo vitnað sé í sýningaskrá þá stendur þar, " Búvélasafnið á Hvanneyri er vísir að tæknisafni landbúnaðarins. Búvélaðsafnið varðveitir og sýnir búvélar og verkfæri sem komið hafa við sögu í sveitum fyrr á árum þ.á.m. elstu traktora landsins." Á safninu er þrír elstu traktorar (Dráttarvélar ) Landsins: Austin- og Fordson traktorar, og Þúfnabaninn svonefndi (Lanz) allir frá árunum 1920-1921.
Safnið er rekið af Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri
Samgönguminjasafnið
Ystafelli
641 Húsavík
Íslandi
Veffang:
Þetta er ekki stórt safn á heimsmælikvarða, en þetta er líkast til stærsta bílasafn Íslands. Safnið er stofnað af Ingólfi Kristjánssonar bifvélavirkja, sem hefur eins og stendur í sýningarskrá " safnað varahlutum, tækjum og bílum og er þetta safn árangur af þeirri starfsemi í hálfa öld". Elsti bílinn á safninu er Ford AA vörubíll árgerð 1929 að auki eru þarna t.d. Willys eða öllu heldur Ford GP er mér sagt í herlitum, Dodge Carriall, Dogde weapon, Bren sem er lítill skriðdreki ætlaður til að draga fallbyssur og nokkrir fólksbílar. Allskyns vélar, verkfæri, varahlutir, auglýsingabæklingar og myndaalbúm eru þarna fyrir gesti og gangandi, það er alltaf heitt á könnunni og það er ekki erfitt að ná umsjónarmönnum safnsins í spjall ef gestir vilja fræðast betur um það sem fyrir augu ber og ekki komið að tómum kofunum þar, enda eru þeir áhugamenn um allt sem snertir bíla og vélar. Á mölinni fyrir framan safnið eru nokkrar dráttarvélar og á túninu eru nokkuð margir bílar misvel farnir, þeir sem komnir eru á besta aldur hafa væntanlega nokkuð gaman af að rölta um á milli þeirra og rifja upp minningar æskuáranna, hvort þeir hafi sest upp í þessa tegundina eða hina. Eins og fornbílaáhugamenn vita er Ingólfur svo að auki með nokkrar fullar skemmur af varahlutum. Það er vel þess virði að koma við á Ystafelli ef menn eiga leið um og eða gera sér ferð þangað, enda aðgangseyri stillt mjög í hóf.
Safnið er um það bil miðja vegu milli Akureyrar og Húsavíkur.
Véla og samgönguminjasafnið
Stóragerði
Óslandshlíð Skagafirði
Íslandi
Veffang:

Safnið var opnað í júní 2004. Eigandi þessa merkilega safns er Gunnar Þórðarson. Eins og sést á heimasíðunni þá er margt um skemmtilega gripi og ekki að sjá annað en að þeim sé mjög vel við haldið. Þetta er líkast til stæðsta bílasafn landsins og örugglega þess virði að skjótast þangað í heimsókn.

Canada automotive museum
99 Simcoe Street
Oshawa
Ontario L1H 4G7
Kanada
Safnið er í tveggja hæða húsi sem byggt var 1962, því er ætlað að sýna áhrif bíla á sögu og þróun Kanada. Safnið er að vissu marki tvískipt, þarna eru líka um 50 fornbílar sem eru í eigu framkvæmdastjóra safnsins en þeir eru leigðir út, aðallega til kvikmyndaframleiðanda, en eru geymdir á safninu á milli verkefna. Þótt elsti bíllinn sé 1898 Fisher Electric, eru það aðallega Orient Buckboard og Redpath Messenger sem spegla framþróun vélrænna samgangna í Kanada. Orient, amerískur að uppruna er ekki með eiginlega fjöðrun heldur er trégrind bílsins látin gleypa ójöfnur sem á vegi hans verða. Redpath er Kanadískur og er dæmigerður fyrir aldamótatæknina með 1170cc einstrokks mótor. 1914 Galt þykir æði merkilegur, svo og tveir Kanadískir Brooks gufubílar frá 1924. Þarna er International Auto Wagon framleiddur af forvera International Harvester company verksmiðjunar. Semsagt sneisafullt safn af Kanadískri bílasögu.
Safnið er í miðborg Oshawa.
National museum of
science and technology
2380 Lancaster Road
Ottawa
Ontario K1A 0M8
Kanada
Safnið er þjóðarsafn með samgöngu- og bíladeild sem er nokkuð stór. Um 90 farartæki sum hver alveg einstök en öll hafa þau átt sinn þátt í samgöngusögu Kanada. Því miður eru aðeins um 12 bilar til sýnis á hverjum tíma en vonir standa til að því verði bætt. Helsta gersemi safnsins er gufuvagn 1867 Seth Taylor, sem talinnn er fyrst sjálfrennireiða í Kanada, síðan liðu 36 ár þangað til framleiðsla á véllnúnum farartækjum hófst í Kanada, en það var Le Roy runabout. Fysti bíllinn framleiddur í Montreal, Comét 1906/7 er þarna en hann er að grunni til settur saman úr Clément-Bayard hlutum. Sú framleiðsla stóð aðeins í ár. McLaughlin 1911 Model 33 sem stefnt var að að yrði al-kanadískur en var þegar upp var staðið yfirbyggður á Buick grind. Þarna eru Tudhope highwheeler og Gray-Dort lítt kunnir Evrópu búum sá fyrrnefndi með stór teinahjól til að komast betur yfir urð og grjót en sá síðarnefndi er með Lycoming mótor (ekki þó flugvélamótor). Sumir kannast kannski við Bricklin og Manic, en hversu margir kannast við Bartlett frumgerðina sem var með loftfjöðrun og gegnheila hjólbarða en í gegnum þá mátti reka teina til að auka grip í hálku.
Safnið er Ottawa borg, farið er vestur efir Queensway (417) beygt til vinstri á St. Laurent Boulevard: Lancaster Road er á öðrum gantamótum til vinstri
Svedinos
Bil- och
Flygmuseum
Kustwagen
Halmstad-
Falkenberg
Svíþjóð

Þetta þykir nokkuð merkilegt safn, ekki vegna þess að það státi af Bugatti eða Rollsum heldur er þarna að finna marga bíla sem ekki finnast annars staðar, en erfitt getur reynst að bera kennsl á þá vegna þess að það er nokkuð þröngt um bílana sem flestir eru óuppgerðir. Þarna er til dæmis Graf und Stift phaeton 1911 sömu gerðar og Ferdinand erkihertogi Auturríkis var drepin í, en það morð hleypti af stað fyrri heimstyrjöldinni. Á Svedino safninu er mjög gott safn Volvo bifreiða.
Safnið er í einhverskonar skemmu og utan við það standa nokkrar flugvélar til dæmis Saab Draken.

National museum og thechnology
Kostelní 42
1700 Praha 7
Tékkó
Safnið er ekki stórt, enda bara deild í tæknisafninu. Margir af bílum þess eru þeir einu sem vitað er af í heiminum. 1899 Nesselsdorfer Wien racer sem Von Liebig greifi ók í fyrsta kappakstrinum sem haldinn var í Vínarborg er einn þeirra hann var knúinn áfram af Benz vél. Laurin & Klement var einn af þessum framúrskarandi Tékknesku framleiðendum, þeir eiga þarna fulltrúa í 1924 árgerðinni, Laurin & Klement verksmiðjurnar voru síðan yfirteknar af Skoda. Fleiri er hægt að nefna svo sem, Elka 1912 með 8/9 hestafla V-twin mótor, Wikov OHC sports 2-seater 1935 og Praga runabout 1910 árgerð. Þarna eru líka tvær Tatra bifreiðar, en annars er sérstakt Tatra safn rekið af sömu aðilum.
Safnið er í miðborg Parg rétt norðan við ána.
Tatra technical museum
742 21 Koprivnice
okres Nový Jicin
Tékkó
Safnið er tileinkað Hans Ledwinka sem eins og margir aðrir snjallir bifreiðasmiðir koma frá þessum hluta Evrópu. Það spannar sögu Nesselsdorfer bifreiðana og Tatra , en það nafn var tekið upp 1923. Elsti bíllinn af 50 sem á safninu eru, er Nesseldorfer 1901 Type B wagonette sem knúinn er áfram af fyrsta boxer mótor Ledwinka. Þarna eru síðan Tötrurnar í röðum. Type 11 1923 ,Type 77a V8 1935, til nútíma Tatra 603. Grindur þessara bíla þóttu vel hannaðir og á tímabil þóttu þeir jafnvel bera af Porsche Austro-Daimlers. Þarna eru líka sýnishorn Tatra vörubíla og aldrifs trukka sem eru framleiddir en í dag. Að síðustu skal nefna 1933 V570 Volkswagen tilraunabíl sem safnið á.
Koprivnice er fyrir austan Prag. Farið er út af E1 Brno-Kraków hraðbrautinni nálægt Pribor , fyrir sunnan Morowská Ostrava. Næsta borgir eru Hranice og Frydek-Mistek
Porsche
Museum

Porschestrasse 42
D-7000 Stuttgart-
Zuffenhausen
Þýskalandi
Porsche safnið er ekki stórt, þar eru um 20 bílar sem þykja merkilegir fyrir sögu Porsche. Sem dæmi má nefna nokkrar útgáfur af Porsche 356, 904 GTS coupé, 906 Carrera, 908/3 spyder, 911 Carrera RSR turbo, 911 SC safari 4WD sá er fyrstur keppti í Dakar rallýinu, 917 kurs og lang, 917/30 með sín 1100 hestöfl, 935 Moby Dick, 936 spyder, 956 og 959A prototype. Með öllum veggjum eru glerskápar með bílum í stærðinni 1/43. Þar má finna líkön af bílum sem hafa tekið þátt í hinum ýmsu kappökstrum fyrir Porsche og er úrvalið hreint ótrúlegt.
Safnið var þegar ég skoðaði það 1985 inn á verksmiðjulóðinni og lét ekki mikið yfir sér. Þar voru þá framleiddar 911, 928 S og 944 gerðirnar og ég held að það hafi verið hægt að fá að skoða verksmiðjuna með fylgdarmanni.
Rosso Bianco
Collection

Obernauer Strasse 125
D-63743 Aschaffenburg
Þýskalandi
Veffang:
Það er erfitt að lýsa þessu safni, fyrir það fyrsta þá hef ég ekki séð það og fyrir það næsta þá er bæklingurinn sem ég hef í höndunum , svo yfir fullur af skemmtilegum bílum að það hálfa væri nóg. Megnið af bílunum eru evrópskir sport- og keppnisbílar. Þarna sjást nöfn eins og Abarth, Alfa Romeo, Aston Martin, Borgward, BMW, Bugatti, Chevron, Cooper, de Tomaso, Elva, Ferrari, Jaguar, Lamborghini, Lancia, Lola, Lotus, Maserati, McLaren, OSCA, Panhard, Pegaso, Porsche, Shelby, Talbot Lago, Triumph og Zakspeed og þegar þessum nöfnum er raðað saman kom út nöfn eins og Talbot Darracq Lago Grand Sport Figoni-Falaschi, Alfa Romeo 2600 SZ Zagato Coupé, Abarth Fiat 750 Zagato og OSCA MT 4 Vignale spider. Þarna er ekki verið að ræða um einn bíl af hverri tegun sem dæmi eru um 20 Maserati bílar á safninu, hver öðrum fallegri. En eins og fyrr segir það er erfitt að lýsa þessu safni svo vel fari.
Safnið sem var stofnað 1987 er í nokkrum skálum. Í fyrsta skálanum á jarðhæð eru Mille Miglia bílar og sportbílar sem gerðir voru út af verksmiðjum í kappakstra (Werksrennsportwagen). Á annari hæð eru Grand Tourismo og sportbíla. Í skála tvö eru götusportbílar (strassensportwagen) framleiddir á árunum 1906 til 1980. Í þeim þriðja á jarðhæð eru keppnis sportbílar (Rennsportwagen) frá 1960 til 1970 og á annari hæð keppnissportbílar frá 1970 til 1980 ásamt mótorhjólum og smábílum. Þá er þarna safn höggmynda og málverka tengdum bílum ásamt sögulegum auglýsinga plaggötum. Og dæmi nú hver fyrir sig hvort það er þess virði að fara að skoða þetta safn. Nýjustu fréttir eru þær að það sé búið að selja safnið til Hollands, en hvar það er staðsett í Hollandi hef ég ekki upplýsingar um.
Mynd