Ég fæddist á Siglufirði 1951 og bjó þar fyrstu 19 æviár mín, og það er stutt síðan ég hætti að segja heima þegar ég tala um Siglufjörð. Þar stundaði ég mína skólagöngu og vann í síldinni á sumrin. Að loknu gagnfræðaprófi 1967 ílengdist ég eitt ár í Sigló verksmiðjunni. Ég held að ég hafi reynt flest í sambandi við síldina fyrir utan tvennt, það er sinn hvor endann á ferlinu. Ég hef aldrei veitt síld og ég hef ekki borðað síld ótilneyddur.
Ég flutti suður til Reykjavík 1969 og hóf þá nám í símvirkjun hjá Pósti og síma. Lauk því á tilsettum tíma og bætti við meistara námskeiðum til að fá titilinn símvirkjameistari. Þegar flestir símvirkjar gengu í RSÍ 1990 breyttist starfsheitið í rafeindavirkja- meistari og hefur verið það síðan. Fyrstu árin hjá símanum vann ég aðallega við tengingar og breytingar á símstöðvum en 1987 hóf ég starf á Gagnafluttningsdeild Pósts og síma og hef verið þar síðan. Starfvettvangur minn þessa dagana er þjónustuborð einstaklingsmarkaðar Símans, hvar aðallega er tekið á ADSL og nettengivandamálum. En nóg um það að sinni .